top of page

Heilbrigðiskerfið

 

Síðan friðarsamkomulagið var gert árið 2005 hafa tilraunar verið gerðar til að bæta lífskjör, en þó er ennþá langt í land. Aðeins um helmingur þjóðarinnar hefur aðgang að betri vatnsaðstöðu og tæplega ¾ íbúa hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðiskerfið í Suður-Súdan er eitt það versta í heiminum og lífsskilyrðin eru ekki góð. Eitt af hverjum tíu börnum í Suður-Súdan deyja fyrir 5 ára aldur vegna sjúkdóma og vannæringu (Sustainable and Equitable Primary Health Care, 2013). Flestir læknar og hjúkrunarfræðingar vinna í borgum og bæjum því þar eru launin hærri. Í Suður-Súdan eru of fáir læknar og í sumum þorpum eru aðeins 3 læknar á hverja 10.000 íbúa og spítalar eru oft yfirfullir (Sudan. Poverty & Healthcare).  

Sjúkdómar

 

Mismunandi vistfræðileg skilyrði, lélegt hreinlæti og mikil vannæring veldur hárri tíðni lífshættulegra sjúkdóma. Algengustu sjúkdómarnir eru malaría, mislingar, berklar, kólera og heilahimnubólga (South Sudan).

 

Malaría er sýking í rauðum blóðkornum af völdum snýkjudýra. Það gerist einkum með stungum kvenkyns moskítóflugna. Sýkingin veldur sótthita og blóðleysi. Í alvarlegum tilvikum getur sjúklingurinn látist. Um 300 milljónir manna smitast árlega af malaríu og leiðir hún a.m.k. til milljón dauðsfalla á hverju ári. Um 90% dauðsfalla eru meðal barna og verst er ástandið í Afríku sunnan Sahara (Malaría – mýrarkalda).   

 

Mislingar er einn mest smitandi veirusjúkdómur sem til er. Hann á upptök sín í veiru sem nefnist morbilli. Mislingar er óþægilegasti barnasjúkdómurinn og sá hættulegasti af þeim sem hafa útbrot í för með sér. Mislingar berast með úðasmiti í lofti. Jafnvel þótt sá smitaði sé hafður í einangrun getur smit borist milli herbergja. Allir sem ekki hafa áður fengið mislinga eiga á hættu að smitast. Einkennin eru mörg og þau helstu eru að hiti hækkar upp í u.þ.b. 39°C, mikið nefrennsli, hósti, roði í augum, viðkvæmni fyrir ljósi, stór og aum þykkildi á hálsi og eymsli í koki. Einnig geta myndast gráir blettir á stærð við sandkorn í slímhimnu á innanverðum neðri vörum hjá augntönnum, svonefndar mislingadröfnur, sem eru undanfari útbrotanna sem á eftir fylgja (Mislingar).  

 

Kólera er bakteríusýking í þörmum sem berst í menn með menguðu vatni og matvælum. Einkennin eru heiftarlegur niðurgangur sem getur á stuttum tíma leitt til ofþornunar og dauða ef ekki er gripið fljótt til aðgerða. Meirihlutinn af mengaða vatninu kemur úr Níl, sem rennur í gegnum Juba. Finna þarf aðra leið til að koma hreinu og öruggu vatni inn í borgina, annars mun kólerusýkingin breiðast hratt út (Birta Björnsdóttir, 2014).

Menntun

 

Á meðan stríðinu stóð voru margir íbúar Suður-Súdan sviptir tækifæri til menntunar. Aðeins um fjórðungur fullorðinna í Suður-Súdan geta lesið. Jafnvel eftir friðarsamkomulagið og fjölda tilrauna til að fjölga tækifærum til menntunar, hafa aðeins um helmingur barna á skólaaldri aðgang að menntun (South Sudan). Nýtt stríð braust út í desember 2013 sem orsakaðist af árekstrum milli þjóðflokkanna í landinu. Þetta hafði veruleg áhrif á menntun og líf barna í Suður-Súdan. Um hálf milljón barna eru á flótta og neyðast til þess að hætta í skóla vegna átakanna. Mörg börn hafa verið aðskilin frá fjölskyldum sínum og verið gerð að hermönnum og neydd til að berjast (Bærendtsen, 2014).

bottom of page